miðvikudagur, maí 03, 2006
þriðjudagur, maí 02, 2006
Annar í 1. maí
Massa flott kröfuganga í gær. Ég verð þó að viðurkenna að það er skemmtilegra að sitja á teppi í Fælledparken í Khöfn með bjór en að skrölta niður Laugaveginn í óútreiknananlegu veðri. Hvers vegna er það annars svo að enginn stjónmálamaður/-flokkur tjáir sig á 1. maí hérna á Íslandi? Jú kannski Ögmundur, en hann er samt verkalýðsforingi auk þess að vera stjórnmálamaður. Jafnaðarmenn hljóta að láta hagsmuni verkafólk sig varða, en ekkert heyrðist í þeim í gær. Í Danmörku er aðalræðan á baráttudeginum sú sem formaður Jafnaðarmannaflokksins heldur. Eða á vinnandi fólk sér enga alvöru fulltrúa meðal stjórnmálamanna hér á landi (fyrir utan Ögmund)?Ég tók eftir skemmtilegri tilviljun í göngunni í gær. Ef maður breytir skammstöfuninni ASÍ smávegis, þá stendur þar ÁSI. Ég var þar af leiðandi farinn að sjá nafnið mitt, eða alla vega styttingu á því, út um allan bæ í gær.
föstudagur, apríl 28, 2006
Próf og varnir
Ég er búinn í prófum. Eða réttara, ég er búinn í eina prófinu sem ég átti að taka á þessari önn. Nú ætla ég að fara hefja skriftir á stórverkinu sem BA-ritgerðin mín verður. Ef allt gengur að vonum skila ég henni í október. Frábært!Mig langar að segja eitt eða tvö orð um varnarmál. Eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnar er sinna vörnum þjóðar sinnar. Það verður að marka skýra stefnu og ekki skilja landið eftir varnarlaust. Það er kannski ekki nein gríðarleg hætta á árás á Ísland í augnarblikinu, en við verðum að greina ógnina og gera ráðstafanir eftir því. Nú eru stjórnarflokkarnir svo greinilega ósammála um marg varðandi varnarmálin. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra tala hvor í sína áttina, og það virðist ekki eins og einhver lausn sé í augnsýn. Halldór talar um ágæti Evrópu sem samstarfsaðila, en Geir vill ekki tala við aðra en Bandríkjamenn. Þessi staða er óþolandi, sérstaklega ef hún verður viðvarandi yfir langan tíma. Ábyrgast væri að rjúfa þing strax eftir sveitastjórnakosningarnar þannig að þingkosningar yrðu í haust, svo flokkarnir neyðist til að marka sér skýra stefnu og fólk geti myndað sér skoðun eftir því. Ný ríkisstjórn væri þá með öflugt umboð til að marka varnarstefnu Íslands næstu árin. Nú eru liðnir tveir mánuður siðan Bandaríkjaher boðaði brottför sína frá Íslandi, viðræður um framhald varnarsamningsins virðast ganga mjög hægt og við vitum sjálf ekkert hvert við eigum að stefna, enda ríkisstjórnin með aumt umboð til samninga. Þingkosningar í haust myndi styrkja samningsstöðu ríkisstjórnarinnar (sama hvaða ríkisstjórn yrði eftir kosningar) gagnvart mótaðilanum og líklegra að sátt yrði um tilhögun varnarmála meðal þjóðarinnar. Hitt er annað mál, að Halldór mun líklega ekki þora að boða til kosninga strax í haust eftir hið ömurlega fylgi sem flokkur hans líkalega mun fá í sveitarstjórnarkosningunum.
þriðjudagur, apríl 18, 2006
Framsókn farin
Ætlaði Framsóknarflokkurinn ekki að bjóða fram undir eigin nafni í Reykjavík í vor. Það er nokkuð ljóst að svo er ekki raunin. Nú er bara talað um B-listann og til marks um það kemur orðið ,,framsóknarflokkurinn" hvergi fram á heimasíðu framsóknarmanna í Reykjavík, hrifla.is. ÞAÐ er skemmtileg staðreynd. Nú eru engir framsóknarmenn í Reykjaík, bara B-listamenn. Þeir búa til B-list á borð við B-kvikmyndir. Djók...
Vonlaus og hornhimnulaus
Það er afar óþægilegt að klæja í augunum. Dagslinsuforðinn minn er uppurinn, af einhverjum ástæðum, og ég er neyddur til að setja upp á mig gleraugu. Ég gekk með gleraugu daglega á tímabili, en aldrei gat ég hætt að fikta í þeim og leggja þau frá mér í tíma og ótíma. Þess vegna skipti ég yfir í dagslinsur, og hef notað þær síðastliðin fimm ár. Þegar maður hættir með linsurnar er nánast ekkert eftir af hornhimnunni (eða hvað sem það heitir) og þess vegna klæjar mér í augunum. Það er nota bena afar erfitt að klóra sér á augunum. Hornhimnan kemur þó aftur eftir nokkra daga án linsa. Og síðan eru gleraugun endalaust að fara í taugarnar á mér núna.laugardagur, apríl 01, 2006
Hvar er Hugvísindadeild?
Ég var að lesa Vöku-síðuna og þar var grein þar sem m.a. segir:,,Ef fjárveitingar til þessara tveggja áðurnefndra deilda [félagsvísindadeildar og viðskipta- og hagfræðideildar] eru skoðaðar þá eru þær báðar þess vafasama heiðurs aðnjótandi að vera meðal þeirra þriggja deilda sem að fá lægstu fjárveitingu á hvern nemanda. Deildin sem skipar sér í botnsætið ásamt Félagsvísinda- og Viðskipta- og Hagfræðideild er Lagadeild."
Þá spyr ég: Hvar er Hugvísindadeild?! Það er afar svekkjandi að sjá það að deildin mín er ósýnileg í augum höfundar greinarinnar. Hugvísindadeild er líka í lægsta reikniflokki og er í jafnmiklum, ef ekki meiri, fjárhagsvanda en deildirnar sem hann nefnir. Hvers vegna á ég að vorkenna félagsvísindadeild, viðskipta- og hagfræðideild og lagadeild, þegar minni deild er ekkert sinnt. Fínt, Oddi er lítið hús undir 1.800 virka nemendur félagsvísindadeildar og viðskipta- og hagfæðideild. En nemendur í Hugvísindadeild hafa ENGAN stað til að lesa! EKKERT! Til að bæta gráu ofan á svart átti mín deild ekki að fá neitt pláss í Háskólatorgi, en eftir mikla baráttu er fyrirhugað að deildin fái smá pláss í húsinu.
Það er sameiginlegt baráttumál deildanna FJÖGURRA (ekki þriggja, eins og greinarhöfundur segir) sem eru í lægst reikniflokki að fá hækkun á framlaginu.
Greinarhöfundur segir síðan:
,,Það er undarlegt að þær tvær síðarnefndu [viðskipta- og hagfræðideild og lagadeild] skulu vera fjársveltar eins og raun ber vitni á meðan þetta eru þær deildir þar sem samkeppni um hylli nemenda er hvað mest á íslenskum háskólamarkaði."
Já, á að gefa þessum TVEIMUR deildum meiri pening vegna þess að það er samkeppni um nemendur í þeim greinum? Á þá ekki að gefa minni deild meiri pening vegna þess að hún er ekki í samkeppni? Er mitt nám sem sagt minna virði en nám þeirra sem sækja nám í hinum deildunum? Ég skil einfaldlega ekki hvað er átt við með þessari setningu, og ef þetta er viðhorf stúdenta í þessum deildum er ljóst að raunveruleg samstaða um kröfuna um aukið fjármagn gengur ekki upp. Ég vona svo sannarlega að svo sé ekki. Þetta var það sem ég vildi segja um þetta...
föstudagur, mars 17, 2006
Erindagjörðir og Ameríka
Ég skrapp í erindagjörðir í dag fyrir hönd félags stúdenta við Hugvísindadeild. Meðal þess sem ég gerði var að skila boðskortum til sendiráða erlendra þjóða á Íslandi á málþing félagsins um stöðu og stefnu tungumálakennslu á Íslandi. Mjög saklaust athæfi í raun, og var það líka mat allra sendiráðanna, nema eins. Þegar ég kom að sendiráði Bandaríkjanna mætti mér öryggisstarfsmaður, og krafðist ítarlegrar munnlegrar skýrslu um hver ég væri, hver ætti að fá bréfið, hvað stæði í því og hvers vegna. Ég þurfti að krota á umslagið þessar upplýsingar, standandi úti á götu (án þess að fá nokkurs konar aðstoð). Það er víst alltaf svoleiðis ef maður vill hafa einhver samskipti við þessa stóru þjóð að manni er veitt stöðu grunaðs manns, eða eitthvað álíka.sunnudagur, mars 05, 2006
Metfærslan
Ég var að renna yfir fjölda heimsókna á þessa síðu, og í ljós kom að mestur fjöldi gesta kom á hana 12. maí 2004. Ég skal láta töluna ósagða, en til að reyna að komast aftur á sama ról ætla ég að birta færsluna frá þessum degi aftur og athuga hvort heimsóknatíðnin rífist ekki upp í kjölfarið.Hér er færslan frá 12. maí 2004:
,,Ég var að ljúka við það að skila ritgerð minni í Mannkynssögu III til Inga Sigurðssonar, en eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá er ég að skila tæpri viku eftir tilsettan tíma, en málið er að ég skilaði rigerð minni síðastliðinn föstudag, en svo kom heldur betur babb í bátinn. Innan við klukkustund eftir að ég lagði ritgerðina í hólfið hans Inga í Árnagarði, þá hringir maðurinn í mig og byrjar símtalið á slíkan hátt að það gæti ekki annað en bent til ills. Því það fyrsta sem hann sagði þegar hann var búinn að heilsa var: "Það hefur eitthvað farið alvarlega úrskeiðis hjá þér". Ég hafði breytt tilsettum titli ritgerðarinnar, sem hann hafði útbúið og því gat hann ekki tekið við ritgerðinni þó svo að ritgerðin fjallaði um hið sama viðfangsefni og hin upprunnalega ritgerðarspurning sagði til um. Svo nú hef ég, ofan í allt annað þurft, að svitna yfir þessari ritgerð síðustu daga. Þetta vandamál var fullkomlega á misskilningi byggt, svo ég kenni ekki Inga um frekar en mér sjálfum, en mér finnst þetta nú allt saman frekar asnalegt."
Þetta virðist ekki áhugavert, en þetta varð alla vega til að metfjöldi heimsótti síðuna.